Bíó og sjónvarp

Óvæntar vinsældir Twilight

Ástar- og ævintýramyndin Twilight fjallar um óvenjulegt ástarsamband unglingsstúlku og vampíru.
Ástar- og ævintýramyndin Twilight fjallar um óvenjulegt ástarsamband unglingsstúlku og vampíru.

Ævintýramyndin Twilight verður frumsýnd hérlendis í kvöld. Myndin, sem fór beint á toppinn í Bandaríkjunum, fjallar um ástarsamband unglingsstúlku og vampíru og er byggð á metsölubók Stephanie Meyer.

Bella Swan hefur alltaf verið dálítið öðruvísi en aðrir og hefur aldrei haft áhuga á að passa inn í stúlknahópinn í menntaskólanum sínum. Þegar móðir hennar giftist í annað sinn og sendir hana í vist til föður síns í smábænum Forks í Washington býst hún ekki við því að margt muni breytast í sínu lífi. Þá hittir hún hinn dularfulla Edward Cullen sem er ólíkur öllum öðrum strákum sem hún hefur hitt. Hann er vampíra en fjölskylda hans er óvenjuleg á þann hátt að hún kýs að drekka ekki mannablóð.

Enginn vildi TwilightTwilight, eða Ljósaskipti, kom mjög á óvart þegar hún var frumsýnd í Bandaríkjunum. Hún kostaði aðeins 37 milljónir dollara en þénaði strax á frumsýningarhelgi sinni rúmar 70 milljónir. Hið merkilega er að ekkert af stóru kvikmyndaverunum framleiddi myndina heldur var það hið smáa Summit Entertainment, en aðeins rúmt ár er síðan það hóf sjálft að dreifa myndum í Bandaríkjunum. Fjórar metsölubækur

Þegar hefur verið ákveðið að kvikmynda framhald Twilight og stefnir því allt í að nýr framhaldsmyndabálkur sé að verða að veruleika, enda eru bækur Stephanie Meyer þegar orðnar fjórar talsins. Hafa þær allar selst gríðarlega vel í Bandaríkjunum og víðar um heiminn, eða í 25 milljónum eintaka. Jafnframt hafa þær verið þýddar yfir á 37 tungumál, þar á meðal á íslensku undir nafninu Ljósaskipti.

Margir vilja meina að Twilight-bækurnar séu að vissu leyti arftaki Harrys Potter-bókanna því enginn af stóru bókaútgefendunum tók Harry Potter upp á sína arma og það sama virðist hafa gerst með Twilight, ekkert af stóru kvikmyndaverunum áttaði sig á möguleikum Twilight. Naga þau sig eflaust í handarbökin þessa dagana.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×