Sport

Holyfield mætir Ófreskjunni

Hinn 46 ára gamli fyrrum heimsmeistari Evander Holyfield fær í næsta mánuði tækifæri til að verða elsti heimsmeistari í þungavigt í sögu hnefaleika.

Staðfest hefur verið að Holyfield muni mæta rússnesku "ófreskjunni" Nikolai Valuev í Zurich í Sviss þann 20. desember.

Þeir munu berjast WBA beltið sem Valuev vann til baka með sigri á John Ruiz í ágúst, en hann hafði áður misst það í hendur Ruslan Chagaev í apríl í fyrra þegar hann tapaði sínum fyrsta og eina bardaga á ferlinum.

Með sigri getur Holyfield orðiði elsti heimsmeistari í sögu þungavigtar, en metið á grillmógúllinn George Forman sem varð heimsmeistari 45 ára að aldri árið 1994.

Holyfield hefur unnið 49 bardaga á löngum ferli, en hefur reyndar aðeins unnið fimm af síðustu ellefu bardögum sínum frá árinu 2001. Hann byrjaði feril sinn árið 1984 en er líklega þekktari fyrir að hafa látið Mike Tyson bíta af sér eyrað en heimsmeistaratitla sína.

Holyfield verður væntanlega ekki álitinn eiga mikla möguleika í bardaganum, því auk þess að vera ellefu árum eldri en andstæðingurinn - er hann 30 kílóum léttari og 30 sentimetrum lægri.



Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×