Ítalinn Flavio Briatore telur að Lewis Hamilton muni klúðra málum í meistarabaráttunni í lokamótunum tveimur, rétt eins og í fyrra. Hvort ummælin eru sálfræðibrella er óljóst, en hann lét þessi ummæli falla í ítölsku dagblaði í dag.
"Hamilton mun kasta frá sér titilinum. Hann var með 17 stiga forskot í fyrra. Núna er hann bara með fimm stig. Hann glutraði niður 17 stiga forskoti í fyrra og ætti að vera í heimsmetabók Guinnes", sagði Briatore.
Ég tel að Felipe Massa verði heimsmeistari. Mér finnst Hamilton ekki hafa lært neitt. Við sáum það í Japan. Hann er Formúlu 1 ökumaður en lætur eins og marsbúi. Hamilton er ekki Muhamed Ali og á eftir að sanna sig. Hann er vissulega góður ökumaður, en munurinn á afburðar ökumanni og góðum er að þeir klára dæmið."
"Það eru til sóknarmenn sem skjóta í stöng og slá og geta ekki skorað. Svo eru aðrir sem skora…. Vissulega er ég Ítali og styð því Ferrari frekarn McLaren. Ég hef ekkert gleymt ásökunum McLaren á hendur okkur um njósnir í fyrra. Það var fáránlegt mál."