Körfuknattleikssamband Ísland hefur útnefnt þau Helenu Sverrisdóttur og Jón Arnór Stefánsson sem körfuknattleiksmenn ársins.
Bæði hafa átt frábæru gengi að fagna á árinu. Helena hefur verið að vekja mikla athygli með háskólaliði sínu í Bandaríkjunum þar sem hún var valin nýliði ársins í lok síðasta tímabils.
Á þessu tímabili hefur hún verið burðarás liðsins sem hefur unnið mörg önnur sterk háskólalið í haust.
Helena lék í haust með íslenska landsliðinu í B-deild Evrópukeppninnar og er þar stigahæsti leikmaður deildarinnar með 23,6 stig að meðaltali á leik. Hún á auk þess flestar stoðsendingar eða 5,6 að meðaltali.
Jón Arnór var byrjunarliðsmaður hjá Lottomatica Roma á Ítalíu sem komst í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu auk þess sem liðið keppti í úrslitum um ítalska meistaratitilinn. Honum var boðið að æfa með nokkrum NBA-liðum í sumar en ákvað að koma heim og spila með KR sem hefur enn ekki tapað leik á tímabilinu.