Sport

Andy Murray sló út Nadal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Murray fagnar sætum sigri á Nadal.
Murray fagnar sætum sigri á Nadal. Nordic Photos / AFP

Bretar hafa loksins eignast almennilega stjörnu í tennisheiminum. Skotinn Andy Murray bar í gær sigur úr býtum gegn Rafael Nadal frá Spáni í undanúrslitum opna bandaríska meistaramótins.

Viðureignin hófst reyndar á laugardaginn en henni varð að fresta vegna óveðurs í þriðja setti.

Murray hafði þá komið Nadal, sem er í efsta sæti styrkleikalista Alþjóða tennissambandsins, í opna skjöldu og unnið fyrstu tvö settin, 6-2 og 7-6.

Nadal hafði forystu, 3-2, í þriðja settinu þegar viðureigninni var frestað og náði að halda henni áfram í gærkvöldi. Nadal vann settið með sex stigum gegn fjórum.

Murray lét þó ekki slá sig út af laginu og náði undirtökunum á ný þó svo að Nadal hefði unnið uppgjöf af honum í upphafi settsins. Murray fagnaði að lokum sigri með því að vinna settið 6-4.

Bretar hafa ekki átt sigurvegara á risamóti í tennis síðan að Fred Perry vann opna bandaríska meistaramótið árið 1936. Murray hefur þegar tryggt sér fjórða sætið á heimslistanum sem er það besta sem annar breti, Tin Henman náði.

Greg Rusedski komst í úrslit á opna bandaríska árið 1997 en Murray hefur nú þegar sýnt að það býr meira í honum en í hinum báðum þar sem Nadal hefur verið nánast óstöðvandi þetta árið. Meira að segja Roger Federer hefur þurft að játa sig sigraðan, til að mynda á opna franska og Wimbledon-mótinu.

En Murray mun einmitt mæta hinum særða Federer í úrslitum sem getur með sigri í kvöld (klukkan 21.00, væntanlega á Eurosport) unnið sinn fimmta titil í röð á opna bandaríska.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×