Viðskipti innlent

Varar við þýskum bankamönnum

Nigel Farage, leiðtogi breska Sjálfstæðisflokksins, varar Íslendinga við að ganga í Evrópusambandið. Við það fái bankamenn í Frankfurt í Þýskalandi völd yfir ákvörðunum þjóðarinnar.
Nigel Farage, leiðtogi breska Sjálfstæðisflokksins, varar Íslendinga við að ganga í Evrópusambandið. Við það fái bankamenn í Frankfurt í Þýskalandi völd yfir ákvörðunum þjóðarinnar. Mynd/Rósa

Ef Íslendingar ganga í Evrópusambandið verða þeir „líkt og maður sem er lokaður inni í brennandi húsi án útkomuleiðar". Þetta sagði Nigel Farage, leiðtogi breska Sjálfstæðisflokksins, á opnum fyrirlestri á vegum Heimssýnar og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í hádeginu á fimmtudag. Farage er einn þekktasti stjórnmálamaður Bretlands og tvímælalaust með þekktustu gagnrýnendum Evrópusambandsins þar í landi.

Í fyrirlestri sínum varaði Farage Íslendinga við að gefa eftir völd yfir fiskveiðistjórnun, vaxtaákvörðunum og utanríkisstefnum, og að varasamt væri að gefa þau „einhverjum bankamönnum í Frankfurt".

Farage gagnrýndi fiskveiðistjórnunarstefnu Evrópusambandsins harðlega, og sagði hana hafa orðið til þess að á annað hundrað þúsund störf hefðu tapast. Að auki leiddi hún tíl stórfellds brottkasts, allt að sjötíu prósentum afla í Norðursjó væri hent í sjóinn. En þó þessi stefna væri hreint glapræði væru engar líkur til að henni fengist breytt og útilokað að Íslendingar fengju undanþágu undan henni. „Ef við getum ekki fengið undanþágur, fimmta stærsta hagkerfi heims, getið þið það ekki! Það er einfaldlega útilokað," sagði hann.

Fyrirlestur Farage var haldinn í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins og var vel sóttur. Að lokum fyrirlestrarins urðu líflegar umræður þar sem Farage sagði á litríkan hátt frá reynslu sinni í Evrópuþinginu, en hann hefur setið þar síðan 1999, og er einn af leiðtogum andstæðinga Evrópusambandsins á þinginu.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×