Íslenska körfuboltalandsliðið er nú statt í London á leið sinni til Austurríkis þar sem það mætir heimamönnum í riðlakeppni Evrópumóts B-þjóða á laugardag. Íslenska liðið verður fámennt um helgina vegna veikinda.
KR-ingarnir Fannar Ólafsson og Jakob Sigurðarson fóru þannig ekki með íslenska liðinu til London í morgun og liggja heima veikir.
Fannar missti af leik Íslendinga gegn Svartfellingum í gær og Jakob Sigurðarson veiktist skömmu eftir leik í gærkvöld og fór því heldur ekki með liðinu.
Strákarnir eru nú lentir í London og fljúga til Austurríkis í fyrramálið, en Sigurður Ingimundarsson mætir að öllu óbreyttu með aðeins 10 menn til leiks á laugardag.