Spretthlauparinn Oscar Pistorius má keppa á Ólympíuleikunum en hann vann mál sitt fyrir alþjóðlegum áfrýjunardómstóli.
Suður-Afríkumaðurinn Pistorius missti báða fætur fyrir neðan hné sem ungabarn og notast við sérstakan búnað frá íslenska stoðfyrirtækinu Össuri sem gerir honum kleift að hlaupa.
Alþjóða frjálsíþróttasambandið bannaði upphaflega Pistorius að keppa á Ólympíuleikunum en nú hefur þeirri ákvörðun verið hnekkt.
„Ég er himinlifandi vegna úrskurðar dómstólsins og vona að það þaggi í þeim sem hafa komið með ýmsar vafasamar kenningar."
Pistorius á enn eftir að ná lágmarki fyrir Ólympíuleikana en hann vonast til að gera það í 400 metra hlaupi. Hann á best 46,56 sekúndur en A-lágmarkið er 45,55 sekúndur. Ef enginn frá Suður-Afríku nær því lágmarki dugar honum að ná B-lágmarkinu sem er 45,95 sekúndur.
„Ég hef einbeitt mér í þessu áfrýjunarferli að fatlaðir íþróttamenn fái tækifæri að keppa við ófatlaða á jafnréttisgrundvelli. Ég hlakka til að halda áfram baráttu minni fyrir að komast á Ólympíuleikana."