Haukar unnu í dag fjórtán marka sigur á Víkingum í N1-deild karla í dag, 37-23. Þetta var fyrsti sigur liðsins í síðustu fjórum deildarleikjum Hauka.
Sigurbergur Sveinsson skoraði átta mörk fyrir Hauka og þeir Stefán Rafn Sigurmannsson og Einar Örn Jónsson sex hvor. Gísli Guðmundsson átti mjög góðan dag í marki Hauka og varði 24 skot.
Davíð Ágústsson var markahæstur hjá Víkingum með fimm mörk en Davíð Georgsson, Hreiðar Haraldsson og Óttar Pétursson voru allir með þrjú mörk. Björn Viðar Björnsson varði sextán skot í markinu.
Haukar eru nú með sex stig en eru enn í sjötta sæti deildarinnar. Víkingar eru enn án stiga í neðsta sætinu.
