Martin O'Neill, knattspyrnustjóri Aston Villa, segir að komi vel til greina að Gareth Barry, leikmaður félagsins, komi með til Íslands þar sem liðið mætir FH í forkeppni UEFA-bikarkeppninnar á fimmtudaginn.
Barry hefur lengi verið orðaður við Liverpool en Aston Villa hefur ítrekað hafnað tilboðum Liverpool í leikmanninn. Hann lék með Aston Villa í Intertoto-keppninni gegn Odense í síðasta mánuði.
Ef Barry spilar með gegn FH á fimmtudaginn mun hann ekki getað spilað með Liverpool í Meistaradeildinni fyrr en á síðari hluta tímabilsins.
„Hann er okkar leikmaður," sagði O'Neill. „Jafnvel þótt hlutir kynnu að breytast getur vel verið að hann komi með okkur ef hann verður enn leikmaður Aston Villa á miðvikudagsmorgun."