Fyrrum heimsmeistarinn Mike Tyson er sagður vilja mæta erkióvini sínum Evander Holyfield enn eina ferðina í hringnum. Tyson lýsti þessu yfir í viðtali fyrir nokkrum dögum, en bar það reyndar til baka í öðru viðtali skömmu síðar.
Þessir tveir fyrrum meistarar mættust tvisvar í hringnum fyrir um áratug síðan og í bæði skiptin hafði Holyfield betur - þó hann hefði misst hluta af eyra sínu í öðrum þeirra.
"Ég væri til í að berjast við Holyfield aftur, en það færi eftir því hvaða peningar væru í boði," sagði Mike Tyson í viðtali í gær. Hann var svo spurður hvort hann væri í formi. "Hræðilegu, en ég get komið mér í gott form á þremur mánuðum," sagði járnkarlinn.
Þá hafa komið upp hugmyndir um að sigurvegarinn í þeim bardaga myndi mæta sigurvegaranum úr bardaga Roy Jones jr og Felix Trinidad sem háður verður á laugardagskvöldið og verður sýndur beint á Sýn.
"Ég væri til í að mæta öðrum þeirra - rétt eins og hvaða sigurvegara sem er," sagði Roy Jones jr þegar hann var spurður út í málið.