Enski boltinn

Benitez algjörlega trúr starfi sínu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafa Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool.
Rafa Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Rafa Benitez segist enn vera 100 prósent trúr starfi sínu sem knattspyrnustjóri Liverpool þrátt fyrir slakt gengi undanfarnar vikur.

Liverpool er úr leik í báðum bikarkeppnunum á Englandi og er í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnarinar, nítján stigum á eftir toppliði Arsenal. Liðið mætir Inter í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld en það er eina keppnin sem Liverpool á enn raunhæfa möguleika á að vinna.

„Ég hef nú starfað sem þjálfari í 21 ár. Ég á bæði góðar minningar og slæmar," sagði Benitez. „En hollusta mín við félagið er algjör. Við verðum bara að halda áfram. Það er eina leiðin til að breyta einhverju."

Liverpool tapaði fyrir Barnsley í ensku bikarkeppninni um helgina en Benitez segir að liðið geti samt unnið Inter í kvöld.

„Allir vita að við erum virkilega vonsviknir og við viljum bæta okkur. Við munum reyna að gera einmitt það."

„Stemningin hjá leikmönnum er virkilega góð, betri en fólk býst við. Leikmennirnir mínir búa yfir sjálfstrausti og eru tilbúnir í slaginn í kvöld."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×