Giovanni Cobolli Gigli, forseti Juventus, vill að fengnir verði erlendi dómara til að dæma leiki í ítalska boltanum.
Juventus var neitað um tvær augljósar vítaspyrnur þegar liðið tapaði 2-1 fyrir Reggina í gær. Vafaatriði í ítalska boltanum hafa aldrei verið fleiri en á yfirstandandi tímabili og dómgæslan verið mikið til umræðu.
„Auðvitað gera dómarar mistök en mistökin eru bara orðin of mörg. Að mínu mati var dómari leiksins í gær ekki hæfur í þetta verkefni. Öll vafaatriði féllu með Reggina, það var augljóst," sagði Gigli.
„Gæði dómara á Ítalíu eru ekki nægilega mikil. Ég hef aldrei verið hlynntur þeirri hugmynd að fá erlenda dómara til að dæma í deildinni en á þessum tímapunkti gæti það verið rétta lausnin."