Heimamaðurinn Gael Monfils komst í dag í undanúrslit í einliðaleik karla á opna franska meistarmótinu í tennis.
Frakkland hefur ekki átt meistara á mótinu síaðn 1983 og bindur því miklar vonir við Monfils sem lagði David Ferrer frá Spáni í dag, 6-3, 3-6, 6-3 og 6-1.
Ferrer var í fimmta sæti á styrkleikalista mótsins en Monfils komst ekki á þann lista sem geymir aðeins 32 sterkustu keppendur mótsins.
Monfils er í 59. sæti styrkleikalista Alþjóða tennissambandsins en hann á erfiða viðureing fyrir höndum í undanúrslitunum þar sem hann mætir besta tenniskappa heims, Roger Federer.
Federer komst í undanúrslitin fyrr í dag með því að leggja Fernando Gonzalez frá Chile, 2-6, 6-2, 6-3 og 6-4.
Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast kapparnir í öðru og þriðja sæti á styrkleikalista mótsins. Það eru Rafael Nadal frá Spáni sem hefur unnið á opna franska meistaramótinu undanfarin þrjú ár og Novak Djokovic frá Serbíu. Djokovic vann sigur á opna ástralska meistaramótinu fyrr á árinu.
Sport