Sport

Lance Armstrong keppir á ný

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lance Armstrong fagnar áfangasigri í Tour de France fyrir þremur árum.
Lance Armstrong fagnar áfangasigri í Tour de France fyrir þremur árum. Nordic Photos / AFP

Bandaríski hjólreiðakappinn Lance Armstrong hefur tilkynnt að hann ætli sér að keppa í hjólreiðum á nýjan leik og freista þess að vinna Tour de France á næsta ári.

„Það gleður mig að geta tilkynnt að eftir að hafa rætt við börn mín, fjölskyldu og nánustu vini, að ég hef ákveðið að snúa aftur í heim atvinnumennskunnar í hjólreiðum," sagði Armstrong.

Hann gerir þetta til að vekja athygli heimsins á krabbameini en sjálfur sigraðist hann á krabbameini í eistum. Hann náði að snúa aftur á hjólabrautina eftir meðferðina og vann Tour de France sjö sinnum áður en hann hætti árið 2005.

„Nærri átta milljónir manna munu láta lífið af völdum krabbameins á þessu ári. Það er kominn tími til að takast á við þennan vanda á heimsvísu."

Þetta eru gríðarlega góðar fréttir fyrir hjólreiðar en íþróttin hefur verið gegnsýrð af lyfjahneykslismálum undanfarin misseri. Sjálfur hefur Armstrong verið sakaður um lyfjamisnotkun en því hefur hann ávallt neitað enda aldrei verið sannað á nokkurn máta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×