Rafael Nadal vann í kvöld sinn fyrsta sigur á Wimbledon mótinu í tennis eftir sögulegan úrslitaleik við fimmfaldan meistara Roger Federer. Þetta var fyrsti sigur Nadal á risamóti utan opna franska - en það mót hefur hann unnið fjórum sinnum.
Úrslitaleikurinn var ótrúlega dramatískur og náði Nadal að vinna sigur í oddasetti eftir að Federer hafði sett á svið ótrúlega endurkomu 6-4, 6-4, 6-7 (3-7), 6-7 (8-10) 9-7.
Rigning setti svip sinn á leikinn og nokkrum sinnum þurfti að gera hlé á leiknum vegna þess. Farið var að dimma þegar Nadal náði loksins að tryggja sér sögulegan sigurinn.
Federer gat með sigri orðið aðeins annar maðurinn í sögunni til að vinna sex Wimbledon titla í röð - en það hefur raunar ekki gerst síðan árið 1880. Björn Borg náði einnig að vinna fimm Wimbledon mót í röð.
Hinn 26 ára gamli Nadal varð hinsvegar fyrsti tennisleikarinn síðan Björn Borg árið 1980 til að vinna opna franska og Wimbledon mótin á sama árinu.
Federer hefði unnið 65 leiki í röð á grasi, en tap hans í dag sýnir að þessi besti tennisleikari heims er ekki alveg ósigrandi.
Nadal fagnaði sigrinum með tár á hvarmi og stökk upp í stúku og heilsaði spænsku konungsfjölskyldunni sem fylgdist með honum spila.

