Frakkinn Jo-Wilfried Tsonga varð í dag síðasti maðurinn til að tryggja sig inn í fjórðungsúrslit einliðaleiks karla á opna ástalska meistaramótinu í tennis.
Tsonga lagði Bandaríkjamanninn James Blake í þremur settum, 6-4, 6-4 og 7-6. Viðureignin var þó jöfn og spennandi en á endanum reyndist Tsonga taugasterkari auk þess sem að Blake átti í mestu vandræðum með öflugar uppgjafir hans.
Blake kom sér í 5-2 forystu í þriðja settinu en Tsonga náði að jafna, 5-5, og vinna svo settið í oddalotu, 7-3.
Tsonga mætir Fernando Verdasco frá Spáni í fjórðungsúrslitunum en Spánverjinn gerði sér lítið fyrir og lagði Andy Murray í morgun.