Rannsóknarnefnd Alþingis hefur tekið formlegar skýrslur af 26 einstaklingum. Þar á meðal eru ráðherrar, fyrrverandi og núverandi, fyrrverandi bankastjórar Seðlabanka Íslands og forstjóri Fjármálaeftirlitsins, fyrrverandi bankastjórar, starfsmenn úr stjórnsýslunni og bönkunum og sjálfstæðir sérfræðingar sem unnið hafa á vegum þessara aðila. Þetta kemur fram á vef rannsóknarnefndarinnar.
Til viðbótar hefur nefndin og starfsmenn hennar átt fjölmarga fundi með starfsfólki í bönkunum og stjórnsýslunni til að afla upplýsinga og skýringa vegna athugana nefndarinnar.
Páll Hreinsson, Tryggvi Gunnarsson og Sigríður Benediktsdóttir sitja í rannsóknarnefndinni sem ætlað er að skila skýrslu um rannsóknina til Alþingis eigi síðar en 1. nóvember næstkomandi.
Rúmlega 30 að störfum á vegum nefndarinnar
Auk nefndarmannanna þriggja starfa 14 manns nú í fullu starfi við rannsókn nefndarinnar og undirbúning að skýrslu hennar. Til viðbótar koma síðan um 10 einstaklingar sem eru að vinna að ákveðnum verkefnum fyrir nefndina. Þar á meðal eru erlendir sérfræðingar. Alls eru þannig nær 30 að störfum á vegum rannsóknarnefndarinnar þessa dagana.
Nú eru staddir hér á landi tveir erlendir sérfræðingar sem vinna á vegum nefndarinnar að athugun á ákveðnum þáttum í starfsemi bankanna, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.
Fyrrum seðlabankastjórar hafa verið yfirheyrðir
