Breski tenniskappinn Andy Murray segir að Andre Agassi sé enn hetja í sínum augum þó svo að sá síðarnefndi hafi greint frá eiturlyfjanoktun sinni.
Agassi greindi frá því í nýútkominni ævisögu sinni að hann hafi árið 1997 neytt metamfetamíns sem á ensku er nefnt „crystal meth".
„Ég dæmi hann sem tennisspilara. Hann var frábær - einn af þeim bestu frá upphafi. Það vill enginn tengja eiturlyf við íþróttir en það gera allir mistök," sagði Murray.
„Ég held að það hafi enginn átt von á þessu en maður verður bara að halda áfram. Ég hitti Andre í nokkur skipti og æfði með honum. Hann var ótrúlega ljúfur við mig."
„En þetta er eitthvað sem hann verður að eiga við sig sjálfan. Hann hefur rétt á því að segja það sem hann vill og ég óska honum alls hins besta."