Indianapolis Colts og New Orleans Saints eru enn með fullkominn árangur í NFL-deildinni eftir leiki helgarinnar. Bæði lið máttu þó hafa fyrir hlutunum í gær.
Colts lagði Houston Texans, 20-17, eftir að hafa komist í 13-0. Leikurinn var merkilegur fyrir Peyton Manning, leikstjórnanda Colts, en hann varð fyrsti maðurinn til þess að kasta yfir 40 þúsund jarda á innan við tíu árum.
Carolina komst óvænt í 14-0 gegn New Orleans en Saints kom til baka og vann 30-20. Liðið er því 8-0 og það í fyrsta sinn í sögu félagsins.
Dallas vann gríðarlega mikilvægan sigur á Philadelphia og komst um leið í toppsæti riðilsins.
Ekkert gengur hjá NY Giants sem tapaði enn einum leiknum í gær, að þessu sinni fyrir San Diego.
New England Patriots er 6-2 eftir sigur um helgina. Tampa Bay vann svo sinn fyrsta sigur á tímabilinu er liðið skellti Green Bay, 38-28.