Tenniskappinn Roger Federer hélt uppteknum hætti á Wimbledon-mótinu í dag og tryggði sig áfram í fjórðu umferð með sigri gegn Philipp Kohlschreiber.
Svisslendingurinn Federer vann fyrstu tvö settin örugglega áður en Þjóðverjinn Kohlscreiber svaraði með að vinna það þriðja. Federer kláraði svo fjórða settið með stæl en leikurinn tók tvær klukkustundir og þrjátíu mínútur.
Federer mætir Svíanum Robin Sonderling í fjórðu umferð en þeir mættust einmitt í úrslitaleik á Opna-franska mótinu á þessu ári þar sem Federer fór með sigur af hólmi.