Hinn 39 ára gamli leikstjórnandi, og lifandi goðsögn í bandarísku íþróttalífi, Brett Favre, mun spila með Minnesota Vikings í NFL-deildinni næsta vetur standist hann læknisskoðun.
Það hefur ESPN eftir áreiðanlegum heimildum.
Favre kom til Minnesota í dag ásamt konu sinni í einkaflugvél í eigu Vikings. Á meðal þeirra sem tóku á móti Favre var Brad Childress, þjálfari liðsins.
Fastlega er búist við því að Favre gangist undir læknisskoðun síðar í kvöld og blaðamannafundur gæti fylgt í kjölfarið.
Móðir Favre sagði síðan að Favre myndi æfa með liðinu á morgun. Sumir fjölmiðlar ganga síðan svo langt að halda því fram að Favre muni spila æfingaleik með Vikings gegn Kansas á föstudag og verði í byrjunarliðinu.