Serbinn Novak Djokovic þurfti að hætta í miðri viðureign sinni gegn Andy Roddick frá Bandaríkjunum í fjórðungsúrslitum opna ástralska meistaramótsins í tennis í nótt.
Þar með er meistari síðasta árs úr leik en Roddick er nú kominn í undanúrslit mótsins. Hann hafði yfirhöndina í viðureigninni og hafði unnið tvö sett gegn einu.
Djokovic vann fyrsta settið, 7-6, en Roddick þau tvö næstu, 6-4 og 6-2. Staðan í fjórða settinu var 2-1 þegar að Djokovic hætti.
Djokovic átti erfitt uppdráttar í viðureigninni vegna meiðslanna og þurfti að taka leikhlé í þriðja settinu til að gera að meiðslum sínum. En á endanum varð hann að játa sig sigraðan.
Roddick mætir í undanúrslitunum sigurvegaranum úr viðureign Roger Federer og Juan Martin del Potro sem fer fram síðar í dag.
Meistarinn úr leik vegna meiðsla
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
