Logi Gunnarsson, körfuboltakappi úr Njarðvík, á nú í viðræðum við franskt félagslið. Það kemur í ljós um helgina hvort hann semji við félagið.
„Umboðsmaðurinn minn á nú í viðræðum við þetta félag og þetta mál er eiginlega í biðstöðu þar til um helgina," sagði Logi í samtali við Vísi.
„En það var alltaf planið mitt að koma heim í eitt ár og fara svo aftur út. Mér líst vel á þetta félag, en það leikur í næstefstu deild og var eitt af betri liðunum þar síðasta vetur."
Logi hefur áður leikið meðal annars í Þýskalandi, Finnlandi og Spáni.