Handbolti

N1-deild kvenna: Valur vann Stjörnuna í hörkuleik

Ómar Þorgeirsson skrifar
Hrafnhildur Skúladóttir skoraði sjö mörk fyrir Val í kvöld.
Hrafnhildur Skúladóttir skoraði sjö mörk fyrir Val í kvöld. Mynd/Arnþór

Fyrsta umferð N1-deildar kvenna fór fram í kvöld en hæst bar að Valsstúlkur gerðu sér lítið fyrir og skelltu Stjörnustúlkum 17-18 í Mýrinni í Garðabæ í miklum baráttuleik.

Staðan í hálfleik var 10-10 og seinni hálfleikur var æsispennandi frá upphafi til enda. Staðan var jöfn 16-16 þegar fimm mínútur lifðu leiks en Valsstúlkur voru sterkari á lokasprettinum. Stjörnustúlkur fengu reyndar möguleika á því að krækja í jafntefli í lokasókninni en þá varði Berglind Íris Hansdóttir frá Þorgerði Önnu Atladóttur en það var tuttugasta skotið sem Berglind Íris varði í leiknum.

Eins og tölurnar gefa til kynna var varnarleikur aðalsmerki beggja liða og mikið í feila og tapaða bolta á löngum köflum í leiknum. Án þess þó að taka nokkuð af baráttunni sem bæði lið sýndu í varnarleik sínum. Leikurinn var hin besta skemmtun og gefur fögur fyrirheit fyrir toppbaráttu deildarinnar í vetur sem verður án vafa jöfn og spennandi.

Úrslit kvöldsins:

Stjarnan-Valur 17-18

KA/Þór-Fram 24-29

Fylkir-Haukar 23-25

Víkingur-HK 21-28

*FH sat hjá í fyrstu umferðinni






Fleiri fréttir

Sjá meira


×