Serena Williams fór létt með hina rússnesku Dinöru Safinu í úrslitum einliðaleiks kvenna á opna ástralska meistaramótinu í tennis og vann þar með sinn annan titil á mótinu á tveimur dögum.
Þetta var í fjórða sinn sem Serena sigrar á mótinu en þetta var hennar tíundi slemmutitill á ferlinum. Í gær vann hún sigur í tvíliðaleik kvenna þar sem hún keppti með Venus, systur sinni.
Serena fór af miklu öryggi í gegnum undanúrslita- og úrslitaviðureignir sínar en hún mætti rússneskum keppendum í síðustu þremur viðureignum sínum á mótinu.
Safina tókst einfaldlega ekki að valda álaginu sem fylgir því að keppa til úrslita á stórmóti en þetta var í annað sinn á hennar ferli sem hún gerir það. Serena vann fyrsta settið 6-0 og það síðara 6-3.
Leiktíminn var ekki nema 58 mínútur og viðurkenndi Safina að hún hafi ekki átt möguleika í dag. „Ég var bara einn af boltastrákunum í dag,“ sagði hún.
Serena vann Elenu Dementievu í undanúrslitunum en viðureignir hennar í 16-manna og fjórðungsúrslitunum voru umdeildari.
Í 16-manna úrslitunum þurfti Victoria Azarenka að hætta í öðru setti gegn Serenu eftir að hafa unnið það fyrsta 6-3. Azarenka átti við veikindi að stríða og gat ekki haldið áfram.
Í fjórðungsúrslitunum mætti hún Svetlönu Kuznetsovu sem vann fyrsta settið í viðureigninni, 7-5. Vegna mikils hita var ákveðið að loka þakinu á leikvangnum þar sem leikurinn fór fram og sagði Kuznetsova eftir viðureignina að hún hafi verið afar óánægð með þá ákvörðun og fullyrðir að hún hefði unnið viðureignina við óbreyttar aðstæður.
Serena Williams náði með sigrinum að koma sér í efsta sæti styrkleikalista Alþjóða tennissambandsins á kostnað Serbans Jelenu Jankovic sem datt úr leik í Ástralíu í 16-manna úrslitunum.
Sport