Alex Ferguson, stjóri Manchester United, vonast innilega til þess að Roberto Rosetti dómari viðurkenni að það hafi verið mistök að reka Darren Fletcher af velli í leik Manchester United og Arsenal í gær.
United vann leikinn, 3-1, og tryggði sér þar með sæti í úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Fletcher verður hins vegar í banni í leiknum.
Ferguson vill meina að Fletcher hafi alls ekki átt skilið að fá rautt í leiknum.
„Dómarinn mun vonandi skoða atvikið sjálfur án þess að einhver skikki hann til þess," sagði Ferguson eftir leikinn í gær.
„Það var augljóst að boltinn tók aðra stefnu en við ættum ekki að biðja hann um þetta. Hann er fær dómari og nægilega sanngjarn til að skoða þetta sjálfur. Það er víst ekki hægt að áfrýja spjaldinu og ef það er tilfallið er það gríðarlega slæmt fyrir drenginn," sagði Ferguson og átti þar við Fletcher.
„Darren er einn sá allra heiðarlegasti leikmaður í knattspyrnunni og það er mikil sorg fyrir hann að missa af úrslitaleiknum."
Knattspyrnusamband Evrópu getur vissulega dregið rauða spjaldið til baka ef Rosetti dómari fer fram á það í skýrslu sinni sem hann skilar inn í dag.
Enski boltinn