Hannes Jónsson, formaður KKÍ, segir að uppsögn Ágústs Björgvinssonar landsliðsþjálfara tengis „viðkvæmu máli" og vill hann ekki greina nánar frá því.
„Við getum ekki greint frá ástæðum uppsagnarinnar að vo stöddu. Yfirlýsingin segir það sem segja þarf,“ sagði Hannes í samtali við Vísi.
Stjórn KKÍ sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem greint var frá því að samningi Ágústs hafi verið sagt upp. Ástæðan var sögð vera trúnaðarbrestur.
„Við munum þó svara fyrir okkur gerist þess þörf,“ bætti Hannes við.
Hann segir að málið hafi ekki borið brátt að. „Stjórnin er búin að vinna í þessu máli lengi og þetta er ákvörðun sem var tekin að mjög vel ígrunduðu máli."
„Þetta er viðkvæmt mál. Þetta er bara leiðinlegt.“