Enski boltinn

Hughes: Kaka-málið tekur tíma

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mark Hughes, knattspyrnustjóri Manchester City.
Mark Hughes, knattspyrnustjóri Manchester City. Nordic Photos / Getty Images

Mark Hughes segir að það muni taka tíma til þess að ganga frá samningum við AC Milan um kaup á Brasilíumanninum Kaka og að ekkert sé enn frágengið.

Því hefur verið haldið fram að Manchester City sé reiðubúið að borga í heildina tæpar 250 milljónir punda fyrir Kaka og að hann verði þar með langdýrasti og -launahæsti knattspyrnumaður heims.

„Það verður ekki gengið frá þessu á einum degi," sagði Hughes í samtali við enska fjölmiðla eftir að hans menn unnu 1-0 sigur á Wigan í dag.

„Þetta snýst ekki bara um að tala við félagið, svo leikmanninn og allt verði frágengið á tveimur sólarhringum. Svona samningar eru gríðarlega flóknir og taka mun lengri tíma."

„Ég er viss um að þetta muni taka lengri tíma en fólk á von á en við höfum sýnt hvað við viljum gera og við viljum fá hann til félagsins ef það er mögulegt."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×