Viðskipti erlent

Bresk stjórnvöld boða 50% hátekjuskatt

Alistair Darling fjármálaráðherra Bretlands boðaði 50% hátekjuskatt í framsöguræðu sinni um bresku fjárlögin í dag. Á skatturinn að aðstoða breska ríkið við að ná endum saman en lántaka ríkisins í kreppunni hefur slegið öll met.

Fram kom í máli Darling að lántökurnar munu nema 175 milljörðum punda á þessu ári og að innan næstu fimm ára munu opinberar skuldir breska ríkisins nema 80% af landsframleiðslu landsins.

Hátekjuskatturinn leggst á tekjur sem nema meir en 150.000 pundum, eða rúmlega 28 milljónum kr. á ári. Á skatturinn að taka gildi í apríl á næsta ári. Auk þessa munu þeir sem þéna meir en 100.000 pund á ári missa allan persónuafslátt sinn sem eykur skattbyrði þeirra töluvert.

Hátekjuskatturinn í Bretlandi hefur numið 40% frá árinu 1988 þegar hann var lækkaður úr 60% í tíð Nigel Lawson þáverandi fjármálaráðherra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×