Ragnar Sigurðsson skoraði þriðja mark IFK Göteborg í 3-1 sigri á Trelleborg í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Markið skoraði Ragnar úr vítaspyrnu tíu mínútum fyrir leikslok.
IFK Göteborg er búið að missa tvo miðverði í krossbandaslit á síðustu vikum og því var Ragnar með landa sinn Hjálmar Jónsson við hlið sér í miðverðinum. Hjálmar er vanur að leika sem vinstri bakvörður.
IFK Göteborg er áfram í efsta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar en liðið er með eins stigs forskot á Elfsborg sem vann 2-1 útisigur á Djurgården. Helgi Valur Daníelsson lék allan leikinn á miðju Elfsborg.