Gengi hlutabréfa í Icelandair Group sveif upp um 8,43 prósent í Kauphöllinni í dag dag. Útlit var fyrir að Íslandbanki, sem tók yfir 42 prósenta hlut í flugrekstrarfélaginu í síðustu viku á genginu 4,5 myndi tapa 150 milljónum króna á veðkallinu. Bankinn kemur nú út á núlli.
Þá hækkaði gengi bréfa í færeyska olíuleitarfélaginu Atlantic Petroleum um 6,8 prósent, Færeyjabanka um 0,4 prósent og í stoðtækjafyrirtækinu Össuri um 0,48 prósent.
Á sama tíma féll gengi bréfa í Bakkavör um 11,02 prósent og endaði það í 1,05 krónum á hlut. Það hefur aldrei verið lægra.
Líkt og fram hefur komið vinna stjórnendur Bakkavarar Group að því að semja um framlengingu á gjalddaga á skuldabréfalánum móðurfélagsins upp á um 25 milljarða króna, sem lenti í vanskilum fyrir rúmri viku. Náist samningar hefst önnur samningalota um skuldabréfaflokk upp á 30 milljarða, sem er á gjalddaga á næsta ári.
Gamla Úrvalsvístalan (OMXI15) hækkaði um 1,01 prósent og endaði í 262 stigum.