Strákarnir í U-21 árs landsliði Íslands unnu 2-6 sigur gegn Norður-Írum í undankeppni EM 2010 í kvöld en leikið var ytra. Staðan var 0-4 fyrir Íslandi í hálfleik.
Yfirburðir Íslands voru miklir í leiknum eins og lokatölur gefa til kynna um en Bjarni Þór Viðarsson kom íslenska liðinu á bragðið strax á 15. mínútu með marki úr vítaspyrnu.
Jóhann Berg Guðmundsson bætti við öðru marki eftir um hálftíma leik en Alfreð Finnbogason og Rúrik Gíslason skoruðu svo sitt markið hvor í blálok fyrri hálfleiks.
Í síðari hálfleik skoruðu svo Jóhann Berg og Rúrik fyrir Ísland en Norður-Írar skoruðu þá einnig tvö mörk og niðurstaðan því eins og segir 2-6 stórsigur Íslands.