Carlo Janka frá Sviss varði forskot sitt eftir fyrri ferðina í stórsvigi karla og fagnaði sigri í greininni á HM í alpagreinum í Val d'Isere í Frakklandi.
Janka var með tæplega hálfrar sekúndu forskot á Benjamin Raich frá Austurríki eftir fyrri ferðina. En þó svo að Janka hafi gert slæm mistök ofarlega í brautinni tókst honum að auka þann mun og kom í mark 0,71 sekúndu á undan Raich.
Raich varð því í öðru sæti en Bandaríkjamaðurinn Ted Ligety náði að vinna sig upp úr níunda sæti eftir fyrri ferðina í þriðja sætið. Hann var rétt tæpri sekúndu á eftir Janko.
Þetta eru önnur verðlaun Janka á mótinu en hann fékk brons í brunkeppninni. Hann tileinkaði landa sínum, Daniel Albrecht, verðlaunin en hann slasaðist illa við æfingar fyrir brunmótið í Kitzbühel í síðasta mánuði.
Honum hefur verið haldið sofandi síðan þá en vaknaði í gær. Læknar sögðu í dag að hann myndi ekki hljóta neinn varanlega skaða af meiðslum sínum.
Þetta voru önnur gullverðlaun Sviss á mótinu en Bandaríkjamenn hafa einnig unnið tvenn gullverðlaun.