Viðskipti erlent

Segir að búið sé að fresta sölunni á Actavis

Bloomberg fréttaveitan greinir frá því í dag að búið sé að fresta áformaðri sölu á Actavis um óákveðinn tíma. Þetta hefur Bloomberg eftir þremur ónafngreindum heimildarmönnum sem eru kunnugir söluferlinu.

Í fréttinni kemur fram að hugsanlegir kaupendur að Actavis hafi ekki getað sætt sig við 5 milljarða evra verðmiðann sem settur var á Actavis.

Þá segir að söluferlið, sem hófst í janúar s.l., verði endurvakið seinna á þessu ári fari svo að markaðsaðstæður batni.

Bloomberg segir að Björgólfur Thor Björgólfsson eigandi Actavis þurfi að fá 5 milljarða evra úr sölunni á Actavis til að geta staðið skil á skuldum. Áður höfðu komið upp hugmyndir um að selja félagið í pörtum til að laða að fleiri kaupendur.

Þau lyfjafyrirtæki sem talið er að hafi haft áhuga á að kaupa Actavis eru m.a. Teva, Sanofi og Watson.

Leslie Iltgen greinandi hjá Bankhaus Lampe KG segir í samtali við Bloomberg að skuldir Actavis hafi verið aðalhindrunin í söluferlinu. „En þetta er enn gott félag," segir Iltgen.

Hjördís Árnadóttir talsmaður Actavis vildi ekki tjá sig um söluna né talsmenn Teva og Sanofi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×