Rafa Benitez stjóri Liverpool segir lið sitt með mikið sjálfstraust fyrir leikinn gegn Manchester United á Old Trafford á laugardaginn eftir stórsigur á Real Madrid í gærkvöldi.
Liverpool tók spænska liðið í nefið og vann 4-0 og það ætti því að hleypa kappi í lærisveina Benitez fyrir algjöran úrslitaleik fyrir liðið í deildinni á laugardaginn.
United hefur sjö stiga forskot á toppi deildarinnar og segja má að möguleikar Liverpool á enska meistaratitlinum séu úr sögunni ef liðið tapar á Old Trafford.
"Þetta er besti mögulegi undirbúningur fyrir United-leikinn," sagði Benitez eftir leikinn við Real í gærkvöld.
"Það er frábært að vinna lið eins og Real Madrid og skora fjögur mörk þegar maður er að undirbúa liðið fyrir mikilvægan leik í deildinni," sagði Benitez.
"Við munum mæta mjög sterku liði á laugardaginn og við verðum að vinna. Ef við náum að saxa á forskot þeirra, verðum við enn með í titilbaráttunni, en við verðum að bíða og sjá hvað gerist á Old Trafford. Vonandi getum við látið United hafa fyrir hlutunum, við erum í það minnsta með gott sjálfstraust," sagði Benitez.