Fjórðu umferð lauk í gær á Opna franska meistaramótinu í París og er því ljóst hverjir mætast í fjórðungsúrslitunum sem hefjast í dag.
Í karlaflokki hefur það komið langmest á óvart að sigurvegari síðustu fjögurra ára, Rafael Nadal frá Spáni, féll úr leik. Hann varð að játa sig sigraðan fyrir Svíanum Robin Söderling.
Roger Federer frá Sviss er í öðru sæti heimslistans og komst naumlega í fjórðungsúrslitin. Þar mætir hann heimamanninum Gael Monfils en hann er eini Frakkinn sem komast svo langt í bæði einliðaleik karla og kvenna.
Meistarinn í kvennaflokki, Ana Ivanovic frá Serbíu, féll einnig úr leik um helgina. Hún var þó ekki í fyrsta sæti styrkleikalista mótsins enda ekki gengið vel síðan hún fagnaði sigri í fyrra.
Tvær efstu konurnar á stigalistanum - Dinara Safina frá Rússlandi og Serena Williams frá Bandaríkjunum - eru báðar með í fjórðungsúrslitunum.
Maria Sharapova komst einnig áfram en hún hefur verið að gera það gott eftir langa fjarveru vegna meiðsla. Af þeim sökum féll hún út af lista 100 bestu tenniskvenna heims en ljóst er að hún verður aftur á meðal þeirra eftir árangurinn í París.
Rúmenski táningurinn Sorana Cirstea kom einnig mörgum í opna skjöldu í gær er hún bar sigurorð af Jelenu Jankovic frá Serbíu í spennandi viðureign, 3-6, 6-0 og 9-7.
Fjórðungsúrslitin:
Einliðaleikur karla:
Robin Söderling, Svíþjóð - Nikolay Davydenko, Rússlandi
Andy Murray, Bretlandi - Fernando Gonzalez, Chile
Juan Martin del Potro, Argentínu - Tommy Robredo, Spáni
Gael Monfils, Frakklandi - Roger Federer, Sviss
Einliðaleikur kvenna:
Dinara Safina, Rússlandi - Victoria Azarenka, Hvíta-Rússlandi
Dominika Cibulkova, Slóvakíu - Maria Sharapova, Rússlandi
Sorana Cirstea, Rúmeníu - Samantha Stosur, Ástralíu
Svetlana Kuznetsova, Rússlandi - Serena Williams, Bandaríkjunum