FH-ingar mæta á eftir Aktobe í seinni leik liðanna í undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Leikurinn hefst klukkan 16.00 að íslenskum tíma. FH-liðið hefur kynnst miklu mótlæti í aðdraganda leiksins því það er ekki nóg með að hafa tapað fyrri leiknum 0-4 á heimavelli þá var liðið án fimm leikmanna í þetta langa ferðalag.
Sjötti leikmaðurinn bættist síðan í hópinn í dag þegar Pétur Viðarssson meiddist á nára. Þetta kom fram í frétt á www.fhingar.net. FH-ingar ættu hinsvegar að sleppa við allt matarvesen því liðið tók Ingvar á salatbarnum með sér úti til þess að elda auk þess að með í för eru einnig allt hráefni og vatn.
Pétur bætist þá í hóp þeirra Hjartar Loga Valgarðssonar, Freys Bjarnasonar, Atla Viðars Björnssonar, Guðmundar Sævarssonar sem eru líka meiddir og þá er Viktor Örn Guðmundsson í leikbanni.