Belgíska tenniskonan Kim Clijsters hefur boðað til blaðamannafundar á fimmtudaginn þar sem gert er ráð fyrir að hún muni tilkynna að hún ætli að taka spaðann ofan af hillunni.
Clijsters hætti keppni árið 2007 og eignaðist sitt fyrsta barn í febrúar á síðasta ári, en tenniskonan Lindsay Davenport hefur gefið það upp að Clijsters hafi leitað ráða hjá sér um hvernig sé að vera með ungabarn með sér á keppnisferðum.
Clijsters var eitt sinn í efsta sæti heimslistans og er þekktust fyrir að hafa unnið sigur á opna bandaríska meistaramótinu árið 2005. Þá náði hún í úrslit á opna franska tvisvar og einu sinni á opna ástralska.