Ármann Smári Björnsson skoraði eitt af sex mörkum Brann sem vann 6-0 sigur á 3. deildarliðinu Höyang í norska bikarnum í kvöld.
Ármann Smári lék allan leikinn í framlínu Brann en hann var einn af þremur Íslendingum í byrjunarliði liðsins.
Kristján Örn Sigurðsson og Ólafur Örn Bjarnason voru saman í miðri vörninni, Kristján lék allan leikinn en Ólafur fyrstu 58 mínúturnar. Gylfi Einarsson kom síðan inn á sem varamaður á 65. mínútu.
Ármann Smári skoraði mark sitt á fyrstu mínútu seinni hálfleiks þegar hann fylgdi á eftir skoti í kjölfar aukaspyrnu. Ólafur Örn Bjarnason lagði upp fyrsta mark Brann í leiknum.
Odd Grenland komst einnig áfram í bikanrum í dag með 4-0 sigri á Vestfossen en Árni Gautur Arason var hvíldur í leiknum.