Maria Sharapova féll í dag úr leik á Wimbledon-mótinu í tennis eftir að hafa tapað fyrir Giselu Dulko frá Argentínu í annarri umferð mótsins.
Dulko byrjaði mjög vel í viðureigninni og vann fytrsta settið, 6-2, og komst svo í 3-0 í öðru setti. En þá gerði Sharapova sér lítið fyrir og vann næstu sex loturnar og þar með settið, 6-3.
Oddasettið var mjög spennandi en Dulko komst yfir, 5-4. Hún fékk margar tilraunir til að vinna sigur og Sharapova fékk einnig tækifæri til að jafna metin. En á endanum gerði Sharapova mistök og Dulko fagnaði góðum sigri.
„Ég held að þetta sé stærsti sigurinn á mínum ferli. Ég var að spila á aðalvellinum í stærsta móti ársins og það var ótrúlegt að vinna Mariu í dag," sagði Dulko.
Sharapova er nýbúin að jafna sig á meiðslum eftir að hafa verið lengi frá en hún ætlaði sér stóra hluti á Wimbledon-mótinu í ár. Hins vegar varð hún að sætta sig við að falla úr leik í annarri umferð annað árið í röð.