Steve Williams, kylfusveinn Bandaríkjamannsins Tiger Woods, segist vera taugaóstyrkur vegna fyrirhugaðrar endurkomu Woods á golfvöllinn eftir hnéuppskurð.
Woods hefur ekki keppt síðan hann vann opna bandaríska meistaramótið í júní í fyrra en nú styttist í að hann tilkynni hvenær hann hefur leik á ný.
"Ég er dálítið taugaóstyrkur yfir því í hvernig standi hann verður þegar hann snýr aftur. Það er langur tími að vera frá keppni í níu mánuði eftir stóra aðgerð. Tiger er hinsvegar mikill keppnismaður og einn sá besti sem sést hefur í íþróttinni, svo ég hugsa að hann verði fljótur að ná sér á strik," sagði kylfusveinninn í samtali við Sky.
Líklegt þykir að Woods muni reyna að ná amk tveimur mótum til að hita upp fyrir US Masters mótið sem hefst þann 9. apríl.