Handbolti

Einar: Þetta var skársti leikurinn okkar í vetur

Ómar Þorgeirsson skrifar
Einar Jónsson.
Einar Jónsson. Mynd/Vilhelm

„Þetta fer stundum svona þegar Valur og Fram eigast við. Það er svo mikill hraði í þessum liðum og þau eru rosalega dugleg að refsa að þegar vörnin smellur hjá öðru hvoru liðinu þá koma oft þrjú eða fjögur mörk í kippum.

Svo snýst þetta við og þetta verður oft mjög kaflaskipt en það er bara það skemmtilega við handboltann. Maður veit aldrei hverju maður getur átt von á," sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, eftir 21-21 jafntefli liðs síns gegn Val í N1-deild kvenna í handbolta. Einar var að vanda líflegur á hliðarlínunni.

„Mér finnst smá værukærð vera búna að vera yfir mínu liði í vetur og því lét ég vel í mér heyra. Vildi aðeins öskra þær í gang og peppa þetta upp og þær brugðust ágætlega við og mér fannst þetta í raun vera skársti leikurinn hjá okkur í vetur.

Ég hefði samt viljað taka bæði stigin í þessum leik en þessi frammistaða gefur fögur fyrirheit upp á framhaldið að gera," sagði Einar vongóður.

Pavla Nevarilova er byrjuð að spila með Fram að nýju eftir erfið meiðsli og Einar er vitanlega gríðarlega ánægður með að endurheimta hana.

„Pavla hefur ekkert getað æft sem skildi og var því orðin ansi þreytt í lok leiksins. Hún er hins vegar gríðarlega mikilvæg fyrir okkur bæði í vörn og sókn, það verður bara að segjast eins og er og það eru ekki margir leikirnir sem við höfum tapað með hana innanborðs," sagði Einar að lokum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×