Viðskipti erlent

Bermúda og Norðurlönd undirrita samning gegn skattsvikum

Undirritaður verður samningur milli Norðurlanda og Bermúda í apríl um upplýsingaskipti vegna skattsvika og auk þess gerðir röð af viðskiptasamningum. Samningarnir um upplýsingaskipti eru liður í herferð aðilanna um að stöðva skattsvik.

Í frétt um málið á norden.org segir að samningarnir um skipti á skattaupplýsingum munu veita yfirvöldum aðgang að upplýsingum um þá aðila sem leitast við að svíkja undan skatt af tekjum og fjárfestingum og einnig veita upplýsingar um eignir sem ekki hafa verið gefnar upp í heimalandinu.

Meðal annars er um að ræða upplýsingar um eignarhald á fyrirtækjum, samningamenn, stjórnarmenn og þá sem þiggja arð af eignarhaldsfélögum, auk upplýsinga í vörslu banka og fjármálastofnana.

Samningarnir verða undirritaðir við athöfn í sendiráði Svía í Washington þann 16.apríl. Áður en samningarnir verða undirritaðir þarf að ljúka ákveðnu pólitísku ferli.

Samningarnir eru hluti af viðamiklu verkefni sem unnið hefur verið á vegum norrænu ráðherranefndarinnar og hafa þegar verið gerðir slíkir samninga við stjórnvöld á eyjunum Mön, Jersey og Guernsey og þá verður samningur við Cayman eyjar undirritaður í Stokkhólmi þann 1. apríl.

Ennfremur eru samningaviðræður á lokastigi við stjórnvöld á Arúba, Bresku Jómfrúreyjunum og Hollensku Antillaeyjunum. Þá eru hafnar viðræður við önnur lögsagnarumdæmi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×