Justin Henin hefur tilkynnt að hún ætli sér að keppa aftur í tennis á næsta ári en hún hætti fyrir sextán mánuðum síðan.
Hún er 27 ára gömul og vann á sínum ferli samtals 41 titil í einliðaleik kvenna, þar af sjö á stórmótum í tennis.
Hún hætti í maí í fyrra og sagði þá að hún hefði misst ástríðuna fyrir íþróttinni. Hún byrjaði hins vegar að æfa á ný fyrir skömmu og kom það orðrómi af stað að hún ætlaði byrja að keppa á ný.
Fyrr á árinu byrjaði Kim Clijsters að keppa á ný eftir að hafa verið frá keppni í tvö og hálft ár. Á þeim tíma eignaðist hún dóttur.
Aðeins mánuði eftir að hún byrjaði að keppa á ný bar hún sigur úr býtum á opna bandaríska meistaramótinu í tennis sem fór fram fyrr í mánuðinum.
Henin og Clijsters eru báðar frá Belgíu.