Fulltrúar Samfylkingarinnar í þingmannanefndinni sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis fallast ekki á rökstuðning og niðurstöður meirihluta nefndarinnar sem vill að Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, verði dreginn fyrir landsdóm. Þeir segja að Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar hafi útilokað Björgvin frá ákvarðunum er vörðuðu ráðuneyti hans.
Fóru inn á valdsvið annarra ráðherra
Í greinargerð með þingsályktunartillögu fulltrúa Samfylkingarinnar í þingmannanefndinni segir að í öðru ráðuneyti Geirs hafi oddvitar stjórnarflokkanna tveggja, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, farið inn á valdsvið annarra ráðherra, þau hafi stýrt miðlun upplýsinga og haft verkstjórn og verkaskiptingu með höndum.
„Þannig voru samskipti um efnahagsmál og málefni íslensku bankanna takmörkuð við hóp þriggja ráðherra, forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Af þessari skipan leiddi að ekki var samræmi á milli lögboðins valds og raunverulegs valds ráðherra," segir í greinargerðinni.
Þingmennirnir Magnús Orri Schram og Oddný Harðardóttur áttu sæti í nefndinni fyrir hönd Samfylkingarinnar.
Björgvin áhrifalaus
Þau segja að útilokun Björgvins sem viðskiptaráðherra hafi náð hámarki þegar Ingibjörg Sólrún ákvað að honum yrðu ekki kynntar aðgerðir ríkisvaldsins vegna lánabeiðni Glitnis banka sunnudaginn 28. september 2008.
„Áhrifaleysi viðskiptaráðherra kristallast í því að 12. ágúst lagði hann fram minnisblað fyrir ríkisstjórn sem innihélt tillögur um að efla stöðugleika fjármálakerfisins. Tillaga þessi var ekki afgreidd í ríkisstjórn. Hið sama hafði verið uppi á teningnum þegar viðskiptaráðherra kynnti oddvitum stjórnarflokkanna drög að frumvarpi til breytinga á lögum um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta snemma árs 2008," segir í greinargerð Magnúsar og Oddnýjar.
