Veigar Páll Gunnarsson lent í slæmri tæklingu í leik með Stabæk um helgina og nú er óttast að hann gæti verið frá keppni í að minnsta kosti fjórar til sex vikur. Veigar Páll er annar landsliðsmaðurinn sem meiddist illa um helgina því Hermann Hreiðarsson sleit hásin í leik með Portsmouth á laugardaginn.
„Hann meiddist á vinstri ökkla og það er innra liðbandið sem er skaddað. Hann stóð í fótinn þegar hann fékk tæklingu og það snérist upp á ökklann," sagði Tor Østhagen, sjúkraþjálfari Stabæk við Dagbladet.
Veigar Páll lenti í þessari slæmu tæklingu eftir aðeins tólf mínútna leik og yfirgaf völlinn strax.
Veigar Páll byrjaði tímabilið vel með Stabæk og lagði upp tvö mörk í fyrsta leiknum áður en hann varð að yfirgefa völlinn vegna meiðsla. Veigar missti af næstu leikjum en leikurinn á móti Alesund í gær var sá fyrsti sem hann spilaði eftir að hann náði sér af þeim meiðslum.
