Flest bendir til þess að Sigurður Ragnar Eyjólfsson verði áfram þjálfari A-landsliðs kvenna en núverandi samningur hans við Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, rennur út um áramótin.
„Það er ekkert byrjað að ræða nýjan samning en við munum vonandi ræða saman á næstu vikum. Ég hef fullan hug á því að halda áfram með liðið enda tel ég spennandi tíma vera fram undan hjá kvennalandsliðinu," sagði Sigurður Ragnar við Fréttablaðið í gær.
„Ég tel mig geta komið landsliðinu enn lengra en það hefur komist. Það er fullt af spennandi stelpum að koma upp og framtíð landsliðsins er spennandi. Ég tel mig ekki hafa lokið mínu verki þar og vil gjarnan fá að halda áfram," segir Sigurður Ragnar sem hefur iðulega verið orðaður við félagslið í karlaboltanum. „Það hafa reglulega komið tilboð í hendurnar á mér en ég hef vísað þeim frá mér hingað til. Ég mun líklega færa mig yfir í það síðar en rétti tíminn er ekki kominn hjá mér."
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, sagði við Fréttablaðið að hann hefði fullan hug á því að endurráða Sigurð sem hefði verið farsæll í starfi. Það virðist því vera formsatriði að ganga frá málinu.
2007 - 5 sigrar, 1 jafntefli, 3 töp
2008 - 8 sigrar, 3 jafntefli, 1 tap
2009 - 5 sigrar, 1 jafntefli, 8 töp
2010 - 6 sigrar, 0 jafntefli, 4 töp
Samtals - 24 sigrar, 5 jafntefli, 16 töp