Sænska B-deildarliðið Örgryte hefur sett marga leikmenn sína á sölulista vegna fjárhagsörðugleika, þeirra á meðal Steinþór Frey Þorsteinsson.
Steinþór Freyr gekk í raðir Örgryte í sumar frá Stjörnunni og er samningsbundinn félaginu til loka tímabilsins 2012.
„Hans markmið var alltaf að spila í sænsku úrvalsdeildinni eða í annarri sterkri deild árið 2011. Hann vonar að þetta mál leysist að sjálfu sér, bæði hans vegna og félagsins," sagði John Thornberg, umboðsmaður Steinþórs í samtali við þýska fjölmiðla.
Þó nokkrir leikmenn hafa þegar yfirgefið Örgryte sem varð í níunda sæti B-deildarinnar í sumar. Liðið féll úr sænsku úrvalsdeildinni árið 2009.
