Handbolti

Guðmundur: Hefði viljað sjá okkur setja meiri pressu á þær

Ómar Þorgeirsson skrifar
Guðmundur Karlsson, þjálfari FH.
Guðmundur Karlsson, þjálfari FH.

„Fram er einfaldlega sterkara lið en við en mér fannst við samt sem áður skilja alltof mikið eftir inni á vellinum. Ég hefði viljað sjá okkur setja meiri pressu á þær en við gerðum og taka aðeins meira frá þessum leik.

Sóknarleikurinn hjá okkur var of einhliða og bitlaus og við náðum ekki að fá nein hraðaupphlaup," sagði Guðmundur Karlsson, þjálfari kvennaliðs FH, eftir 20-29 tap liðs síns gegn Fram í undanúrslitum Eimskipsbikarsins í Kaplakrika í kvöld.

„Við náðum að minnka muninn í tvígang niður í þrjú mörk í síðari hálfleiknum og vorum með boltann til þess að ná þessu niður í tvö mörk en við náðum ekki að fylgja því eftir. Við hefðum þurft að setja smá pressu á þær og reyna að koma því inn í hausinn á þeim að þær væru að missa tökin á þessu og minna þær á það þegar við náðum að slá þær út úr bikarnum í fyrra en það gekk ekki eftir.

Í stað þess að við næðum að gera leik úr þessu í lokin þá gerum við tvo eða þrjá feila í röð og þær ná þá að ýta sér frá okkur aftur og þá var þetta bara búið," sagði Guðmundur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×